Um Vefrúnu

Vefrún í fortíð og nútíð

Á netinu síðan 2000  

Lénið vefrun.is varð til þann 30. ágúst 2000 og er það því opinber fæðingardagur Vefrúnar.

Auk vefhönnunnar hefur hún tekið að sér ýmiskonar önnur smáverk svo sem eins og að skanna gamlar myndir fyrir Hitaveitu Suðurnesja eða útbúa allt frá litlum auglýsingum og bæklingum fyrir prent upp í risavaxna póstera.

Sigrún 

Sigrún er með vefdelluna.

Þetta byrjaði sakleysislega í gamla daga. Þegar ekki var hægt að tala í símann því hann var í notkun við að vera á internetinu. Þá var ekki nóg að skoða vefsíður, heldur þurfti að skoða kóðann á bakvið. Síðan var ekki annað hægt en að vera maður með mönnum – eða kona með konum – og eiga sína vefsíðu. Þá vað byrjað að skrifa html síðu. Svo var hún krydduð með javascript og java appleti, og á þeim tíma var engin vefsíða betri en sú sem hafði margar hreyfimyndir, og allskonar liti og blikkandi texta.

Ekki er nóg að vita hvernig á að hnoða saman html síðu, svo daman settist á skólabekk í Iðnskólanum í Reykjavík og lagði stund á nám í grafískri hönnun og tók einhverja  vefhönnunaráfanga.

Upp úr því kom ljósmyndadellan sterk inn og öllu er þessu svo blandað saman í listfengan hrærigraut ljósmynda, grafíkur og vefhönnunar.

Núorðið er ekki mikið skrifað af html. Tímarnir breytast og í stað þess að skrifa síður, er nú unnið með kerfi þar sem efnið er geymt í gagnagrunni og útlit er forritað í CSS. Sjálfvirknin hefur rutt sér til rúms.

Einhverntímann á meðan á öllu þessu stóð lærði frúin líka til B.Ed prófs í leikskólafræðum.

Hjörtur 

Hjörtur er nú bara með tölvudellu… og bíladellu. Og tækjadellu svona almennt.

Á meðan Sigrún krufði html krufði karlinn tölvurnar. Það þarf að skrúfa tölvur í sundur og setja þær saman aftur. Og þær þurfa ekkert endilega að vera bilaðar til þess.

Þegar símalínan var upptekin við að vera á netinu var kallinn að vinna í vélavinnu, skítugur upp fyrir haus og illa lyktandi eftir því.

Svo ágerðist tölvudellan, og á endanum var nauðsynlegt að fara í meðferð við henni. Fólst meðferðin í því að ráða sig í fullt starf sem kerfisstjóra, svona til að reyna að ná þessu úr sér.

En tölvudellan er þrálát pest og hefur lítið sem ekkert rénað á öllum þessum árum. Kerfin hafa bara stækkað og viðfangsefnin orðið flóknari og umfangsmeiri. Þó hefur hún aðeins vikið til hliðar á köflum þegar nauðsynlegt reynist að fara á fjöll á jeppanum og leika sér um stund.